Hoppa yfir valmynd
Úrskurðarnefnd velferðarmála - Almannatryggingar

Mál nr. 33/2021 - Úrskurður

 

Úrskurðarnefnd velferðarmála

Mál nr. 33/2021

Miðvikudaginn 2. júní 2021

A

gegn

Tryggingastofnun ríkisins

Ú R S K U R Ð U R

 

Mál þetta úrskurða Rakel Þorsteinsdóttir lögfræðingur, Eva Dís Pálmadóttir lögfræðingur og Kristinn Tómasson læknir.

Með rafrænni kæru, móttekinni 21. janúar 2021, kærði A, til úrskurðarnefndar velferðarmála ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 17. nóvember 2020 þar sem umsókn kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur var synjað.

I.  Málsatvik og málsmeðferð

Kærandi sótti um örorkulífeyri og tengdar greiðslur frá Tryggingastofnun ríkisins með rafrænni umsókn 4. nóvember 2020. Með ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins, dags. 17. nóvember 2020, var umsókn kæranda synjað á þeim grundvelli að endurhæfing væri ekki fullreynd.

Kæra barst úrskurðarnefnd velferðarmála 21. janúar 2021. Með bréfi, dags. 25. janúar 2021, óskaði úrskurðarnefnd eftir greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins ásamt gögnum málsins. Með bréfi, dags. 23. febrúar 2021, barst greinargerð Tryggingastofnunar ríkisins og var hún kynnt kæranda með bréfi úrskurðarnefndar, dags. 25. febrúar 2021. Athugasemdir bárust ekki.

II.  Sjónarmið kæranda

Af kæru má ráða að kærandi óski eftir að ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja henni um örorkulífeyri verði endurskoðuð.

Í kæru kemur fram að kærandi hafi áður fengið synjun um endurhæfingarlífeyri vegna þess að hún hafi að mestu leyti tæmt rétt sinn til endurhæfingarlífeyris þegar hún hafi fengið krabbamein á árinu 2015. Kæranda hafi verið bent á að sækja um tímabunda örorku vegna þess að hún ætti ekki rétt á endurhæfingarlífeyri en henni hafi einnig verið synjað um það. Kærandi glími bæði við andlegar og líkamlegar hindranir vegna krabbameinsins og áfalla sem hún hafi lent í frá æsku. Kærandi sé einstæð með dóttur sína og áhyggjur af framfærslu séu að valda henni miklum kvíða sem geri henni erfiðara fyrir að vinna að bættri heilsu.

III.  Sjónarmið Tryggingastofnunar ríkisins

Í greinargerð Tryggingastofnunar kemur fram að með kæru til úrskurðarnefndar velferðarmála, sé kærð synjun á örorkumati hjá Tryggingastofnun ríkisins.

Umsókn kæranda hafi verið synjað með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 17. nóvember 2020, með vísan til þess að ekki væri tímabært að taka afstöðu til örorku í tilviki kæranda þar sem meðferð og endurhæfing hafi ekki verið fullreynd. Áður hafi umsókn kæranda um áframhaldandi endurhæfingarlífeyri hjá Tryggingastofnun verið synjað þar sem hámarksrétti samkvæmt 7. gr. laga nr. 99/2007 um endurhæfingarlífeyri hefði verið náð. Þeirri umsókn hafi verið synjað með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 22. október 2020. Ekki verði annað séð samkvæmt gögnum kærumálsins en að kærandi sé að kæra báðar þessar ákvarðanir stofnunarinnar og því verði greinargerðin miðuð við þær málsástæður.

Ágreiningur málsins lúti þannig að því hvort kærandi eigi rétt á örorkulífeyri samkvæmt 18. gr. eða örorkustyrk samkvæmt 19. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar eftir að rétti til endurhæfingarlífeyris samkvæmt 7. gr. laga um félagslega aðstoð sé lokið. Kærandi hafi verið á greiðslum vegna endurhæfingarlífeyris með hléum frá 1. ágúst 2015 til 31. október 2020 en þá hafi rétturinn til þess lífeyris hjá Tryggingastofnun verið tæmdur. Fyrir þann tíma hafi kærandi verið með greiðslur barnalífeyris vegna náms hjá Tryggingastofnun frá árinu 2013 þar sem foreldri sé einnig með greiðslur hjá stofnuninni.

Örorkulífeyrir greiðist samkvæmt 18. gr. laga um almannatryggingar þeim sem séu metnir til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Tryggingastofnun ríkisins meti örorku þeirra sem sæki um örorkubætur.  Örorkustyrkur greiðist samkvæmt 19. gr. laganna þeim sem skorti að minnsta kosti helming starfsorku sinnar. Um framkvæmd örorkumats sé fjallað í reglugerð nr. 379/1999 um örorkumat.

Hins vegar sé heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi, sbr. 18. gr. laga um almannatryggingar og 7. gr. laga um félagslega aðstoð.

Um endurhæfingarlífeyri sé fjallað í 7. gr. um félagslega aðstoð, sbr. 11. gr. laga nr. 120/2009 um breytingu á þeim lögum. Heimilt sé að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verði séð hver starfshæfni einstaklings sem sé á aldrinum 18-67 ára verði til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skuli inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar.  Skilyrði fyrir greiðslum sé að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem teljist fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar. Heimilt sé að framlengja greiðslutímabil samkvæmt 1. mgr. um allt að 18 mánuði ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi. Um nánari skilyrði og framkvæmd endurhæfingarlífeyris hjá Tryggingastofnun er fjallað um í reglugerð nr. 661/2020.

Þá sé í 37. gr. laga um almannatryggingar, sbr. 9. gr. reglugerðar um endurhæfingarlífeyri nr. 661/2020, meðal annars kveðið á um að Tryggingastofnun ríkisins skuli kynna sér aðstæður umsækjenda og greiðsluþega og gera þeim grein fyrir rétti þeirra samkvæmt lögum þessum og öðrum lögum er stofnunin starfi eftir, reglugerðum settum á grundvelli laganna og starfsreglum stofnunarinnar. Við meðferð máls skuli staða og réttindi umsækjanda eða greiðsluþega skoðuð heildstætt. Stofnunin skuli leiðbeina umsækjanda um réttarstöðu hans, þau gögn sem þurfi að fylgja umsókn og um framhald málsins og hafi því öllu verið sinnt í þessu máli.

Kærandi sem sé ung að árum, þ.e. að verða x ára, hafi sótt um örorkulífeyri hjá stofnuninni þann 5. nóvember 2020. Með bréfi Tryggingastofnunar, dags. 17. nóvember 2020, hafi kæranda verið synjað um örorkumat samkvæmt 18. gr. og 19. gr. laga um almannatryggingar þar sem stofnunin hafi ekki enn talið endurhæfingu fullreynda í tilviki kæranda, þrátt fyrir að 36 mánaða rétti til endurhæfingarlífeyris samkvæmt 7. gr. laga um félagslega aðstoð væri lokið, sbr. bréf Tryggingastofnunar þess efnis, dags. 22. september 2020.

Kærandi hafi verið á endurhæfingarlífeyrisgreiðslum hjá Tryggingastofnun vegna læknisfræðilegs vanda síns með hléum frá 1. ágúst 2015 til 31. október 2020. Kærandi hafi því lokið 36 mánuðum á endurhæfingarlífeyri. Á þeim tíma hafi kærandi stundað endurhæfingu sína og hlotið nokkurn bata. Kærandi hafi notið liðsinnis geðlæknis, félagsráðgjafa og sálfræðings ásamt aðstoðar heimilislækna vegna stoðkerfisverkja sinna og annarra líkamlegra einkenna. Þá hafi ýmsar stofnanir og samtök komið að endurhæfingunni eins og Samvinna starfsendurhæfing og VIRK starfsendurhæfingarsjóður og frekari endurhæfing sé fyrirhuguð, meðal annars í sálgæslu og í formi menntunar. Starfsendurhæfing sé þar af leiðandi í gangi hjá þessum unga kæranda.

Við mat á umsóknum um örorkulífeyri styðjist tryggingalæknir við þau gögn sem liggi fyrir hverju sinni. Við matið í þessu máli hafi legið fyrir umsókn kæranda um örorkulífeyri, dags. 5. nóvember 2020, læknisvottorð B heimilislæknis, dags. 5. nóvember 2020, sérhæft mat félagsráðgjafa og staðfesting á úrræði hjá Samvinnu starfsendurhæfingu, dags. 12. nóvember 2020, ásamt svörum kæranda við spurningalista Tryggingastofnunar vegna færnisskerðingar, dags. 5. nóvember 2020. Þá voru einnig til staðar eldri gögn vegna fyrri mata á endurhæfingarlífeyri og annarra mata hjá kæranda. 

Í læknisvottorði, sem hafi legið fyrir við synjun Tryggingastofnunar á örorkumati þann 17. nóvember 2020, komi fram upplýsingar um andlegan vanda, þ.e. kvíða (F41,9), þunglyndi (F32,9) ásamt ADHD (F90,0) og áfallastreitu (Stress disorder, post traumatic, F43,1). Þá séu líkamleg einkenni fólgin í verkjum vegna ítrekaðra líkamsárása, bakflæði ( K21,0) og járnskorti (M50,0). Saga sé einnig um Hodgkins lymphoma (C81,1) í lok árs 2015, stig 3BS. Í kjölfarið á sex kúra meðferð, sem hafi klárast í janúar 2016 og eftir það, hafi kærandi verið neikvæð en þurfi áfram að vera í eftirliti vegna hugsanlegra hnútahersla. Læknirinn telji að núna sé kærandi óvinnufær en búast megi við að færni aukist með tímanum.

Í greinargerð félagsráðgjafa og fyrrnefndu læknisvottorði komi fram um fjölskylduaðstæður að kærandi sé einstæð og búi í félagslegri íbúð á vegum sveitafélags með stuðningi frá barnavernd. Kærandi hafi lítið sem ekkert bakland og hafi alist upp við erfiðar aðstæður þar sem móðir hennar sé andlega veik og eigi langa neyslusögu að baki, auk þess sem kærandi hafi sjálf orðið fyrir ýmsum áföllum í ofbeldisfullum samböndum.

Þá komi fram í greinargerð félagsráðgjafa, dags. 12. nóvember 2020, að kærandi hafi farið í mat hjá VIRK starfsendurhæfingarsjóði og niðurstaðan úr því mati hafi verið sú að heilsubrestur væri til staðar sem ylli óvinnufærni en talið hafi verið að endurhæfing hjá VIRK yki líkur á endurkomu til vinnu og talið raunhæft að stefna á þátttöku á almennum vinnumarkaði. Í greinargerðinni komi einnig fram að áætluð tímalengd í starfsendurhæfingu út frá faglegu mati sé tólf mánuðir. Auk þess komi fram að lögð séu til úrræði vegna andlegra og líkamlegra þátta og tekið fram að kærandi vilji vinna og sé byrjuð í tímum hjá næringarfræðingi og sé á biðlista hjá sálfræðingi og sjúkraþjálfara. Einnig sé tekið fram að mikilvægt sé að kærandi fái framfærslu á meðan á endurhæfingunni standi en af því að 36 mánuðum á endurhæfingarlífeyri sé lokið hjá Tryggingastofnun sé óskað eftir tímabundnu örorkumati svo að kærandi geti eflt sig í átt að vinnumarkaði eða í fullt nám.

Af ofangreindum forsendum hafi læknum Tryggingastofnunar sýnst meðferð kæranda í formi endurhæfingar ekki fullreynda og þar af leiðandi væri ekki tímabært að meta örorku hjá þessum unga umsækjanda um örorkumat, þrátt fyrir að 36 mánuðum hafi verið náð á endurhæfingarlífeyri hjá Tryggingastofnun samkvæmt 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð.

Samkvæmt þeim forsendum sem nú hafi verið raktar telji Tryggingastofnun ríkisins það vera í fullu samræmi við öll gögn málsins að synja um örorkumat í tilviki kæranda að svo stöddu þar sem talið sé að enn sé hægt að vinna með heilsufarsvanda kæranda. Þar sé horft til þess hvers eðlis heilsufarsvandi kæranda sé og þeirra endurhæfingarúrræða sem séu fyrirhuguð.

Einnig skuli áréttað að það sé ekki hlutverk Tryggingastofnunar að leggja til meðferðar- eða endurhæfingarúrræði, heldur sé sú ábyrgð lögð á lækna kæranda, þ.e. að koma umsækjendum um endurhæfingarlífeyri og/eða örorkulífeyri í viðeigandi endurhæfingarúrræði sem taki mið af vanda einstaklingsins hverju sinni. Að einhverju marki virðist það nú þegar hafa verið gert samkvæmt orðum kæranda í kærumálsgögnum, greinargerð félagsráðgjafa og læknisvottorði sem hafi legið fyrir í málinu.

Í ljósi alls ofangreinds sé það niðurstaða stofnunarinnar að afgreiðslan á umsókn kæranda, þ.e. að synja um örorkumat í tilviki kæranda að svo stöddu og sjá hver frekari framvinda verði í málum kærandans áður en til örorkumats komi, hafi verið rétt.

Nokkur fordæmi séu fyrir því í úrskurðum úrskurðarnefndar velferðarmála að tekið sé undir að Tryggingastofnun ríkisins hafi heimild samkvæmt 18. gr. laga um almannatryggingar og 7. gr. laga um félagslega aðstoð til að fara fram á það við umsækjendur um örorkubætur að þeir gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi. Sjá meðal annars í þessu samhengi úrskurði úrskurðarnefndar velferðarmála í málum nr. 57/2018, 234/2018, 299/2018, 338/2018, 235/2019, 260/2019, 350/2019, 375/2019, 380/2019, 383/2019, 24/2020, 548/2020 og 600/2020 ásamt fleiri sambærilegum úrskurðum frá síðastliðnu ári.

Í kærunni og öllum öðrum gögnum málsins komi einnig fram að kærandi hafi lokið 36 mánuðum á endurhæfingarlífeyri og eigi því ekki rétt á frekari greiðslum endurhæfingarlífeyris hjá Tryggingastofnun þar sem sá réttur er tæmdur. Í því sambandi vill Tryggingastofnun einnig taka fram að mat á því hvort endurhæfing sé fullreynd miðist við læknisfræðilegar forsendur endurhæfingarinnar en ekki önnur atriði eins og til dæmis framfærslu viðkomandi, búsetu eða aðrar félagslegar aðstæður hans eða það hvort viðkomandi uppfylli ekki einhver önnur skilyrði endurhæfingarlífeyris hjá stofnuninni. Það sjónarmið hafi einnig verið staðfest í mýmörgum úrskurðum úrskurðarnefndarinnar eins og til dæmis úrskurðum úrskurðarnefndar velferðarmála í málum nr. 20/2013, 33/2016, 352/2017 og 261/2018.

Þá vilji Tryggingastofnun að lokum ítreka það að stofnuninni sé heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi um örorkumat hjá stofnuninni gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats komi, sbr. 18. gr. laga um almannatryggingar og 7. gr. laga um félagslega aðstoð.

Jafnframt skuli ítrekað að þegar réttinum, sem ákveðinn hafi verið 36 mánuðir af Alþingi samkvæmt 7. gr. laga um félagslega aðstoð, ljúki sé það ekki sjálfkrafa ákveðið að sá aðili eigi að fara beint í örorkumat þegar gögnin beri með sér að aðilinn sé ekki búinn að fullreyna öll þau endurhæfingarúrræði sem honum standi til boða.

Stofnunin telji ljóst að endurhæfing sé ekki fullreynd í tilfelli kæranda, auk þess sem óvinnufærni ein og sér eigi ekki endilega að leiða til örorkulífeyris hjá Tryggingastofnun frekar en það að rétti til endurhæfingarlífeyris hjá sömu stofnun sé lokið. Einnig skuli áréttað að ákvörðunin, sem kærð hafi verið í þessu máli, hafi byggst á faglegum sjónarmiðum og gildandi lögum og reglugerðum.

IV.  Niðurstaða

Mál þetta varðar ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 17. nóvember 2020 þar sem kæranda var synjað um örorkulífeyri og tengdar greiðslur. Ágreiningur málsins lýtur að því hvort heimilt sé að synja kæranda um örorkumat samkvæmt 18. gr. laga nr. 100/2007 um almannatryggingar á þeim grundvelli að endurhæfing samkvæmt 7. gr. laga nr. 99/2007 um félagslega aðstoð hafi ekki verið fullreynd.

Samkvæmt 1. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar eiga þeir rétt til örorkulífeyris sem metnir eru til að minnsta kosti 75% örorku til langframa vegna afleiðinga læknisfræðilega viðurkenndra sjúkdóma eða fötlunar. Samkvæmt 1. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar metur Tryggingastofnun örorku þeirra sem sækja um örorkulífeyri samkvæmt sérstökum örorkustaðli.

Samkvæmt 3. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar er heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats kemur, sbr. 7. gr. laga um félagslega aðstoð. Í 1. og 2. mgr. 7. gr. laganna segir:

„Heimilt er að greiða endurhæfingarlífeyri í allt að 18 mánuði þegar ekki verður séð hver starfshæfni einstaklings sem er á aldrinum 18 til 67 ára verður til frambúðar eftir sjúkdóma eða slys. Greiðslur skulu inntar af hendi á grundvelli endurhæfingaráætlunar. Skilyrði fyrir greiðslum er að umsækjandi taki þátt í endurhæfingu með starfshæfni að markmiði sem telst fullnægjandi að mati framkvæmdaraðila og eigi hvorki rétt til launa í veikindaleyfi né greiðslna frá sjúkrasjóðum eða teljist tryggður samkvæmt lögum um atvinnuleysistryggingar.

Heimilt er að framlengja greiðslutímabil skv. 1. mgr. um allt að 18 mánuði ef sérstakar ástæður eru fyrir hendi.“

Meðfylgjandi umsókn kæranda um örorkulífeyri var læknisvottorð B, dags. 5. nóvember 2020. Í vottorðinu koma fram eftirfarandi sjúkdómsgreiningar:

„[Iron deficiency anaemia

Post-traumatic stress disorder

Gastro-oesophageal reflux disease

Attention deficit disorder with hyperactivity

Þunglyndi

Kvíði

Hodgkinssjúkdómur, hnútahersli]“

Um heilsuvanda og færniskerðingu kæranda segir í vottorðinu:

„x ára gömul kona msu mikil áföll í æsku. Alin upp hjá móður sem bæði átti við geðsjúkdóma að stríða sem og fíknisjúkdóm. Greinist svo með [...]. Fékk alls 6 ABVD kúra en hún varð PET neikvæð eftir tvo kúra. Kláraði meðferðina í desember 2015 og PET í janúar 2016 neikvætt. Á meðan á meðferð stóð fékk hún thrombus í vena cava superior úr frá picclínu í subclavia. Þurfti að vera á blóðþynningu í nokkrar vikur í kjölfarið. Er áfram í virku eftirliti á vegum hematologa. Síðan hún var ung stúlka hefur hún verið í nokkrum samböndum með mönnum sem bæði hafa beitt hana líkamlegu- og andlegu ofbeldi. Í kjölfar þess verið að kljást við króníska verki í stoðkerfi. Hefur ekki leitað sér læknisaðstoðar vegna þeirra verkja áður. Eftir að hún greindist með krabbamein fór að bera á aukinni andlegri vanlíðan, þ.e. þunglyndi og kvíða. Glímir einnig við PTSD á grunni fyrri sambanda og æsku. Byrjaði í starfsendurhæfingu á vegum VIRK haustið 2016. Fór þar m.a. í sálfræðiviðtöl þar sem hún var beðin að fara yfir hluti sem höfði hent hana yfir ævina. Í kjölfar þess fór hún að endurupplifa slæma hluti frá fyrri árum og í kjölfar þess aukinn kvíði og vanlíðan. Sökum þessa hætti hún endurhæfingunni þar sem hún treysti sér ekki til þess að halda áfram þar sem endurminningar voru of þungbærar fyrir hana. Hún eignaðist sitt fyrsta barn í Maí 2019. Meðgangan gekk vel en hún endurupplifði margar slæmar minningar um kynferðisofbeldi sem hún lenti í fyrri samböndum. Barnið fæddist mánuði fyrir tímann og var einungis 7 merkur sem tók einnig á andlega líðan. Hún er nú einstæð móðir og elur barnið upp ein og fær barnsfaðir hennar dóttur þeirra aðra hverja helgi. Eftir að dóttir hennar fæddist vildi hún láta reyna aftur á VIRK og hefur hún verið þar í endurhæfingu síðan í ágúst á þessu ári. M.a hittir hún reglulega sálfræðing og stundar sjúkraþjálfun sem gengur vel. Í lok ágúst á þessu ári leitar hún á bráðamóttöku vegna blóðugra uppkasta og er í kjöklfarið send í magaspeglun þar sem eru tekin sýni. Magasýnið greinir reaktífa gastropathiu. Í lok október greinist hún með járn- og D vítamín skort og þurfti að fá járngjöf í æð.“

Í lýsingu læknisskoðunar kemur fram:

„Róleg og viðræðugóð í viðtali. Áttuð x3. Engar ranhugmyndir. Ekki sjálfsvígshugsanir. Affect og talþrýstingur lækkaður. Hjarta: S1 og S2 án auka- eða óhljóða.

Lungu: Hrein og jöfn hlustun.

Kviður: Mjúkur. Lífleg garnahljóð greinast í öllum fjórðungum. Þreifieymsli yfir epigastric stað.

Bak: Mikil þreifieymsli yfir öllu baki, paraspinalt.

Útlimir: Þreifieymsli yfir hægra hné, handarbökum og fingrum

Lífsmörk: BP 108/68 Púls 83 Mettun 97% á andrúmslofti.“

Í vottorðinu kemur fram að kærandi sé óvinnufær en að búast megi við að færni aukist eftir læknismeðferð. Um horfur á aukinni færni segir:

„A er að svo stöddu í endurhæfingu á vegum VIRK. Er bjartsýn á að sú endirhæfing muni hjálpa sér og stefnir í kjölfarið á nám og að hún geti í kjölfarið leitað aftur á vinnumarkað“

Í fyrirliggjandi spurningalista vegna færniskerðingar svaraði kærandi spurningum sem snúa að líkamlegri og andlegri færni sinni. Í lýsingu á heilsuvanda nefnir kærandi kvíða, átröskunarvandamál, afleiðingar eftir krabbameinsmeðferð 2015 og áfallastreituröskun. Þá segir að kærandi sé slæm í baki og hægra hné. Einnig nefnir hún minnisleysi.  Í svörum kæranda varðandi líkamlega færni kemur fram að hún eigi erfitt með ýmsar daglegar athafnir vegna verkja. Hvað varðar andlega færni greinir kærandi frá því að hún sé með kvíðaröskun, áfallastreituröskun, sé að glíma við svefnvanda og átröskunareinkenni.

Í málinu liggur fyrir endurhæfingaráætlun frá Samvinnu starfsendurhæfingu vegna tímabilsins 1. nóvember 2020 til 30. apríl 2021 sem felur meðal annars í sér sjúkraþjálfun og sálfræðiviðtöl.

Einnig liggur fyrir bréf C félagsráðgjafa, dags. 12. nóvember 2020. Í bréfinu segir meðal annars svo:

„A fékk [...] árið 2015 og gekk í gegnum lyfjameðferð og var í endurhæfingu á þeim tíma. Hennar helstu vandamál í dag eru áfallastreituröskun, átröskun, kvíði, depurð og stoðkerfisvandi.

A fór í mat hjá D lækni í maí 2020, niðurstaðan úr því mati var að heilsubrestur er til staðar sem veldur óvinnufærni. Samkvæmt matinu er talið að endurhæfing hjá VIRK auki líkur á endurkomu til vinnu og talið raunhæft að stefna á þátttöku á almennum vinnumarkaði. Í matinu kemur einnig fram að áætluð tímalengd í starfsendurhæfingu hjá VIRK út frá faglegu mati séu 12 mánuðir.

Í matinu eru lögð til úrræði vegna andlegra og líkamlegra þátta. a hefur ríka áhugahvöt til þess að vinna sig í átt að bættri heilsu og vill vera góð fyrirmynd fyrir dóttur sína. A hefur mætt vel í Samvinnu frá því að hún byrjaði í starfsendurhæfingu. Hún er byrjuð í tímum hjá næringarráðgjafa, hún er á biðlista hjá sálfræðingi og sjúkraþjálfa.

A hefur ekki verið á vinnumarkaði frá því hún greindist með [...]. Hún hefur verið í endurhæfingu og fæðingarorlofi (2019) en vegna yfirgripsmikils heilsufarsvanda þá þarf hún lengri tíma til þess að endurhæfast á vinnumarkað. A hefur lokið 36 mánuðum í endurhæfingu.“

Úrskurðarnefnd velferðarmála, sem meðal annars er skipuð lækni, leggur sjálfstætt mat á öll fyrirliggjandi gögn. Eins og áður hefur komið fram er Tryggingastofnun ríkisins heimilt að setja það skilyrði að umsækjandi um örorkulífeyri gangist undir sérhæft mat á möguleikum til endurhæfingar og viðeigandi endurhæfingu áður en til örorkumats kemur, sbr. 3. málsl. 2. mgr. 18. gr. laga um almannatryggingar. Í hinni kærðu ákvörðun kemur fram að ekki hafi verið tímabært að taka afstöðu til örorku kæranda þar sem endurhæfing hafi ekki verið fullreynd. Fram komi að kærandi sé í endurhæfingu og örorkumat sé því ekki tímabært.

Fyrir liggur að kærandi býr við vandamál af líkamlegum og andlegum toga og hefur fengið greiddan endurhæfingarlífeyri frá Tryggingastofnun í 36 mánuði samtals. Fyrir liggur að kærandi var í starfsendurhæfingu hjá Samvinnu starfsendurhæfingu þegar hin kærða ákvörðun var tekin. Í læknisvottorði B, dags. 5. nóvember 2020, kemur fram að kærandi sé bjartsýn á að endurhæfingin muni hjálpa sér og að hún stefni í kjölfarið á nám og geti leitað aftur á vinnumarkað. Þá er greint frá því í bréfi C félagsráðgjafa, dags. 12. nóvember 2020, að niðurstaða mats hjá VIRK hafi verið sú að endurhæfing hjá VIRK yki líkur á endurkomu til vinnu og talið raunhæft að stefna á þátttöku á almennum vinnumarkaði. Úrskurðarnefnd velferðarmála telur að ráðið verði af fyrirliggjandi gögnum og eðli veikinda kæranda að endurhæfing geti áfram komið að gagni, enda lá fyrir áætlun um að reyna frekari starfsendurhæfingu þegar hin kærða ákvörðun var tekin. Með hliðsjón af framangreindu er fallist á að Tryggingastofnun hafi verið heimilt að synja kæranda um örorkumat á þeim grundvelli að endurhæfing væri ekki fullreynd.

Að öllu framangreindu virtu er ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins frá 17. nóvember 2020 um að synja kæranda um örorkulífeyri og tengdar greiðslur staðfest.


 

Ú R S K U R Ð A R O R Ð

Ákvörðun Tryggingastofnunar ríkisins um að synja A, um örorkulífeyri og tengdar greiðslur, er staðfest.

F.h. úrskurðarnefndar velferðarmála

Rakel Þorsteinsdóttir

 

 

 

 


Úrskurðir, ákvarðanir og aðrar úrlausnir sem birtast á vef Stjórnarráðsins eru á ábyrgð viðkomandi stjórnvalds. 
Stjórnarráðið ber ekki ábyrgð á efni frá sjálfstæðum stjórnvöldum umfram það sem leiðir af lögum.

Hafa samband

Ábending / fyrirspurn
Ruslvörn
Vinsamlegast svaraðu í tölustöfum